5.5.2007 | 15:22
Vísur af Hagyrðingakvöldi frá Guðmundi Arnfinnssyni
Við gáfum hagyrðingunum upp sex yrkisefni:
Kosningar, Átthagarnir, Evróvision, Vegagerð, Vorið og Burður
Kosningar:
Kosningarnar koma senn,
kosti þarf að meta.
Af frambjóðendum fullt er enn,
sem fjarska lítið geta.
Átthagarnir:
Okkar sveit er sveita best,
segi ég það og skrifa,
þar er fegurð fólgin mest
og farsælast að lifa.
Eurovision:
Söngvakeppni senn mun háð,
sexý mjög þar keppir
Eiki fyrir fósturláð
og fyrsta sætið hreppir.
Vegagerð:
Fyrir vestan vegina
víða þarf að bæta
sem fyrst að þvera firðina
flesta myndi kæta.
Vorið:
Vor af dróma vekur allt
velli blómin skríða,
gleðihljómar hátt og snjallt
heyrast óma víða.
Glöð um tinda gullin sól
geisla bindur kögur;
græna rinda, grund og hól
gyllir yndisfögur.
Burður:
Brestur næði bændum hjá
býsn þeir hafa að gera,
harða spretti eru á
því ærnar fara að bera.
Athugasemdir
ég þarf að æfa mig í að gera svona hringhendur, finnst það flott
Ólína Kristín (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 10:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.