Vísur frá Hallfríði Benediktsdóttur

Vegagerð:
Af því bráðum aka má
Arnkötludals heiði.
Von þeim gefst er vilja sjá
Vestfirðina í eyði.

Vorið:
Ég geng hér á gatslitnum skónum
og greina má vorið í tónum
það rignir með köflum
og rennur úr sköflum
og krónurnar koma undan snjónum.

Eurovision:

Það er mikil þjóðarheppni
og þónokkuð í okkur spunnið
við sendum lög í söngvakeppni
sem fráleitt er að geti unnið.

Átthagarnir:
Óx sem grein af ungri hríslu
uppeldið í réttum skorðum.
Í Steinadal í Strandasýslu
stóð mín ungbarnsvagga forðum.

Föðurleifðin faðm sinn breiddi
fól við barminn unga vífið
með ást og kærleik áfram leiddi
unglinginn í gegn um lífið.

Átthögunum aldrei gleymi
eins, þó víða liggi sporin
fallegustu fjöll í heimi
fönnum prýdd, en græn á vorin.

Kosningar:
Flokkarnir æða sem fífldjarfur her
flykkjast um bæi og sveitir.
En pælið þið í því sá púki er í mér
sem pólitískt viðrini heitir.

Velferðar kerfið í vonlausum hnút
virðist hjá flokkunum öllum
því langar mig mest til að leggjast bara út
og lifa sem þjófur á fjöllum.

Burður:

Sé ég oft um sauðburðinn
set á túnið áburðinn
vel mér besta viðburðinn
vernda og styrki frumburðinn.

Fer svo létt með framburðinn
færi á spjöldin atburðinn.
Hengi á klakka hestburðinn
hef í metum íburðinn.

Líst mér ekki á leirburðinn
ljótan tel ég rógburðinn
Ei má stunda útburðinn
utan þann með póstburðinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband