Vísurnar hennar Bjargeyjar Arnórsdóttur

Þeir sem mættu á Hagyrðingakvöldið muna sennilega eftir því að af þeim sex hagyrðingum sem voru á staðnum, var aðeins einn karlmaður. Að auki fengum við svo sendar vísur frá tveimur karlmönnum.

Badda er vön svona hagyrðinga-uppákomum og oft verið eina konan við borðið en varð á orði þegar hún sá þátttakendur kvöldsins:

Með körlum oftast er ég ein

við yrkinganna borðin.

Nú sé ég Hjört á sömu grein

sá má vanda orðin.

 

Eurovision:

Finnland stóri staðurinn

stolt með keppni sína.

Makkarauði maðurinn

mun þar bjartast skína.

 

Vegagerð:

Sældin hvíld á því öll

að aka vítt um láðið,

ótal vegir undir fjöll

er því besta ráðið.

 

En Vestfirðirnir vita menn

virkjað augun geta,

og fegurðina flestir enn

framar öðru meta.

 

Átthagarnir:

Um átthagana oft ég kveð

eins og dæmin sýna.

Á þá besta máta með

megi sólin skína.

 

Burður:

Gott er sínar gersemar

að geta borið keikur

fjarri mörkum fátæktar

og finnast ævin leikur.

 

En betra andans aðalsmark

alltaf með sér bera,

geta þolað heimsins hark

hlýtt úr köldu gera.

 

Kosningar:

Blásið í lúðra á fjögra ára fresti

fæst ekki í hryðjunum uppstytta nein,

kallað til funda að kaftala gesti

kosningaloforð er íþróttagrein.

 

Um efndirnar þýðir nú ekki að tala

því ýmislegt getur þær truflað og skemmt

ef hópa af gæðingum hægt er að ala

finnst heimskum að tilveran gæti vel stemmt.

 

Kosninganna kraftur er

kjörið tækifæri

í áframhald að efna sér

sem eitthvað betra væri.

 

Vorið:

Gáska lífsins glöggt ég skil

gælir sól við stráin.

Vaknar sterk í vorsins yl

vængjatakaþráin.

 

Kinnastaðaá 1. apríl:

Áin rennur, af sér spennir fjötra,

það er sól og það er vor

þeysöm gjóla hvetur spor.

 

Vornótt undir Vaðalfjöllum:

Birtan er á bak við fjöllin

blundar allt um næturstund,

konungleg er klettahöllin

kyrrðin vefur mel og grund.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband