2.12.2006 | 08:27
Hvað er græðgi?
Gráðug kerling
hitaði sér velling
og borðaði, namm, namm, namm,
síðan svo, jamm, jamm, jamm
af honum heilan helling.
(Þorkell Sigurbjörnsson)
Já sjálfsagt þykir auðvelt að útskýra hugtakið græðgi ef talað er um það í sambandi við mat. Ég er gráðug ef ég háma í mig matinn eða ef ég borða miklu meira en ég þarf. Svo ég tali nú ekki um ef ég borða svo mikið að einhver fær ekki nóg eða alls ekki neitt. Já, þá er ég sko heldur betur gráðug.
En hvað er græðgi ef við lítum á það hugtak í sambandi við viðskipti?
Ég hélt að ég vissi það, en eftir því sem ég hugsaði meira því vissari var ég um að ég hefði ekki vitað það.
Hvað er græðgi annað en áráttan að hrifsa eitthvað frá öðrum til að safna veraldlegum auð og ágirnast meiri veraldlegan auð en ég þarf eða verðskulda?
Við íslendingar eigum mikið af nýríku fólki og fólki sem kann að ávaxta peningana sína, "braska" með þá og búa til verðmæti úr þeim og margir þar af leiðandi orðnir milljónamæringar. Er þetta fólk gráðugt? Þetta er fólk sem gengur vel og kann að nýta sér efnahagsuppgang þjóðarinnar, er það þá gráðugt? Hver ætlar að taka að sér að dæma um hvort þetta fólk þurfi þessi verðmæti eða verðskuldi þau? Á ég að gera það, eða þú? Eða þurfum við kannski að skoða þetta aðeins nánar?
Nýleg forsíða Séð og Heyrt skartar þremur íslenskum fótboltastjörnum sem eiga 335 íbúðir, er það græðgi ? Hver hefur ekki heyrt þessa setningu "voðaleg græðgi er í þessu fólki, hvað hefur það að gera með alla þessa peninga?" Já, hvað hafa þessar fótboltastjörnur að gera með allar þessar íbúðir? Auðvitað koma þeir ekki til með að búa í þeim öllum. En hvað með það? Þeir eru bara að ávaxta peningana sína. Ef ég kaupi hlutabréf í Actavis er ekki þar með sagt að ég ætli að smakka á öllum lyfjunum sem þar eru framleidd. Ég er eingöngu að ávaxta peningana mína með það í huga að kaupa eitthvað annað seinna. Jafnvel ætla ég bara að hafa það gott í ellinni, vil geta hætt að vinna fyrir sextugt og farið að leika mér. Er það græðgi? Eða leti? Eða langar mig bara til að vera með fjölskyldunni og njóta lífsins? Það að vilja eignast mikið af peningum þarf ekki alltaf að vera neikvætt?
Græðgi er án efa frekar neikvætt orð í hugum fólks. Græðgi er ein af höfuðsyndunum sjö. Er græðgi þá það þegar ég vil eignast mikið af peningum af því að ég er löt, afla mér þeirra á ólöglegan hátt eða þannig að það bitnar illa á öðrum?
Ég gerði mjög óvísindalega könnun meðal starfsfélaga minna og spurði þrjá þeirra hvernig þeir myndu skilgreina hugtakið græðgi. Svörin sem ég fékk voru þessi:
Það er þegar þú villt meiri peninga en þú hefur hugmynd um hvað þú ætlar að gera við og/eða finnur ekki löngun til að nota þá.
Það er þegar þú reynir að afla þeirra ólöglega eða með því að meiða aðra.
Frelsi er það svæði sem þú hefur til athafna án þess að snerta nefið á næsta manni. Ef þú reynir að afla peninganna utan þess svæðis, kallast það græðgi.
Þetta þykja mér satt að segja bara nokkuð góðar skilgreiningar. Ef ég afla peninganna á löglegan hátt, án þess að snerta annarra manna nef og veit hvað ég ætla eða langar að gera við þá, þá er ég ekki gráðug, þó það sé eingöngu til að ég geti hætt að vinna og borað í nefið á sjálfri mér þegar ég verð sextug.
Margir virðast vilja halda fram að þegar ég eignast pening að þá tapi einhver annar sömu upphæð, það tel ég ekki vera rétt, fyrir utan það að það geta verið svo margir fleiri sem eru að græða þegar ég græði. Hugsum aðeins um það. Segjum að ég ætti einn milljarð íslenskra króna. Hvað gerist þá? Ég myndi trúlega ekki grafa þær krónur í jörðu undir snúrunum í garðinum heima, ég myndi trúlega reyna að fjárfesta skynsamlega og ávaxta þannig peningana. Hvað gerist þá? Jú, segjum að ég fjárfesti í fyrirtæki, eitthvað fólk hlýtur að vinna hjá þessu fyrirtæki og sjá til þess að uppbygging verði og framfarir, þannig að eftir ákveðin tíma þénar fyrirtækið meira og peningarnir mínir orðnir meira virði en þegar ég fjárfesti. Þegar fyrirtækið fær auknar tekjur vill það gjarnan stækka. Hvað gerist þá? Jú, það verða til fleiri störf og störf skapa tekjur fyrir fólk. Þá hefur mín leit að meiri peningum orðið til þess að fleira fólk eignast peninga. Með öðrum orðum, peningarnir stoppa ekki hjá mér og eru fastir þar, þeir halda áfram, auka virði sitt og fleiri fá notið þeirra. Þetta er að sjálfsögðu einföldun en það þarf ekki að gera alla hluti flókna til að skilja grunnatriðin.
Er hugtakið græðgi kannski runnið út úr hugtakinu afprýðisemi? Við öfundum þessar þrjár fótboltastjörnur af því að geta bara leikið sér í fótbolta, fengið borgað fyrir það og keypt svo 335 íbúðir, þeir eru bara ógeðslega gráðugir hugsum við, hvað er að þessum mönnum? Nei hugtakið græðgi stendur fyrir sínu og er til og er ekkert nýtt af nálinni. Hins vegar tel ég að við séum að ofnota það vegna afprýðisemi. Við segjum að þessi og hinn sé með peningagræðgi þegar honum gengur vel. Af hverju samgleðjumst við ekki þessu fólki? Við örgumst og agnúumst yfir því að þau gefi ekki peningana í góðgerðastarfsemi og linnum ekki látum fyrr en einhver gerir það og hvað segjum við þá? "Jah hann má nú við því, hann á skítnóg af peningum, það er ekki eins og hann finni eitthvað fyrir þessu...". Eins heyrist oft: "þetta er nú bara svipuð upphæð fyrir hann eins og fyrir mig að gefa þúsund krónur". Af hverju gerum við það þá ekki? Hugsið ykkur ef allir gæfu þúsund krónur sem geta það, það myndi bjarga ótrúlega miklu. En nei okkur dettur það ekki í hug, það eru hinir sem eiga að gefa. Það er ofsalega erfitt að gera okkur til geðs því við erum alltof fljót að sjá neikvæðu hliðarnar á öllu. Ættum við ekki frekar að reyna að læra af þessu fólki?
Prófum að samgleðjast næst þegar við sjáum að einhver á 335 íbúðir. Prófum að vera jákvæð næst þegar við sjáum að einhver var að kaupa sér þúsund fermetra hús með átta baðherbergjum, fimm stofum, tíu svefnherbergjum, sundlaug og keiluherbergi.
Eftir þessar hugsanir mínar hef ég komist að niðurstöðu. Græðgi er slæm, græðgi er vond, en það sem við köllum dags daglega græðgi, er ekki græðgi. Græðgi er þegar þú reynir að afla verðmæta, sem þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ætlar að gera við, á ólöglegan hátt og með því að snerta nef annarra. Látum annarra manna nef í friði.
Athugasemdir
Bara svona til að kvitta. Ég er nú ekki alveg viss hvað þú ert að fara, en verð aðeins að tjá mig. Ég held að oft sé það sem "við fátæka fólkið" köllum græðgi bara hreinlega áhugamál. Braskarnir hafa gaman af að sjá peningana breytast í meiri peninga þó þeim vanti ekki fyrir salti í grautinn. Svo þeir mega kaupa og selja að vild fyrir mér.... svo lengi sem það er ekki dregið af mínum launaseðli. Ríkið sér um að taka meira en nóg þaðan og mætti kannski taka meira af þeim sem eru duglegri að búa til peninga og sleppa þeim sem minnst hafa. En nú er ég komin út í allt aðra sálma.
Varðandi dauðasyndina, þá á hún nú bara við matgræðgi að mér skilst svo bisnisskarlarnir okkar eru í góðum málum hehe
Ólína Kristín Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.