5.5.2007 | 15:22
Vísur af Hagyrðingakvöldi frá Guðmundi Arnfinnssyni
Við gáfum hagyrðingunum upp sex yrkisefni:
Kosningar, Átthagarnir, Evróvision, Vegagerð, Vorið og Burður
Kosningar:
Kosningarnar koma senn,
kosti þarf að meta.
Af frambjóðendum fullt er enn,
sem fjarska lítið geta.
Átthagarnir:
Okkar sveit er sveita best,
segi ég það og skrifa,
þar er fegurð fólgin mest
og farsælast að lifa.
Eurovision:
Söngvakeppni senn mun háð,
sexý mjög þar keppir
Eiki fyrir fósturláð
og fyrsta sætið hreppir.
Vegagerð:
Fyrir vestan vegina
víða þarf að bæta
sem fyrst að þvera firðina
flesta myndi kæta.
Vorið:
Vor af dróma vekur allt
velli blómin skríða,
gleðihljómar hátt og snjallt
heyrast óma víða.
Glöð um tinda gullin sól
geisla bindur kögur;
græna rinda, grund og hól
gyllir yndisfögur.
Burður:
Brestur næði bændum hjá
býsn þeir hafa að gera,
harða spretti eru á
því ærnar fara að bera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.4.2007 | 17:12
Frábært kvöld
Ég held að allir sem voru á staðnum geti verið sammála um að Hagyrðingakvöldið var hrein snilld. Við fengum sex frábæra hagyrðinga sem voru hver öðrum betri, með skemmtilegar vísur og limrur sem gerðu kvöldið alveg frábært. Kvöldið byrjaði þó á smá kennslu sem hún Nína okkar sá um og það var til að gera kvöldið fullkomið, hún stóð sig frábærlega og við lærðum margt á stuttum tíma, svo vel setti hún efnið fram. Svo fengum við nokkrar vísur úr salnum sem voru alveg í stíl við kvöldið, þ.e. frábærar
Hagyrðingarnir okkar voru:
Aðalheiður Hallgrímsdóttir frá Mýrartungu II Reykhólahreppi
Bjargey Arnórsdóttir frá Tindum Reykhólahreppi (áður Geiradalshreppi)
Hallfríður Benediktsdóttir frá Bakka Reykhólahreppi (áður Geiradalshreppi)
Hjörtur Þórarinsson frá Reykhólum
Magdalena Thoroddsen frá Vatnsdal í Rauðasandshreppi
Ólína Kristín Jónsdóttir frá Mýrartungu II Reykhólahreppi
Svo fengum við sendar vísur frá Guðmundi Arnfinnssyni og Guðjóni Dalkvist (Dalli) sem er að sjálfsögðu pabbi minn
Ég ætla að mælast til að við gerum þetta tvisvar á ári, ca í október og febrúar/mars/apríl.
Hvet alla til æfa sig að yrkja og vera viðbúnir hagyrðingakvöldi í október ef ég fæ mínu framgengt
Bestu kveðjur
Hanna Dalkvist
p.s. Ég mun smátt og smátt birta einhverjar vísur frá kvöldinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2007 | 08:35
Vorfagnaður og Hagyrðingakvöld
Okkar árlegi vorfagnaður verður með breyttu sniði að þessu sinni.
Messað verður í Áskirkju á morgun sunnudag 22.apríl kl. 13:30. Prestar sem starfað hafa fyrir vestan munu sjá um messuna auk kirkjukórs Patreksfjarðar.
Að lokinni messu verður boðið til kaffisamsætis í Breiðfirðingabúð í Faxafeni. Þeir sem vilja sleppa messunni geta mætt í Breiðfirðingabúð klukkan 14:30.
Hagyrðingakvöld 25.apríl klukkan 20:00
Ég ætla að gerast svo djörf og hreinlega lofa ykkur bráðskemmtilegu hagyrðingakvöldi í Konnakoti, Hverfisgötu 105, 2.hæð, næsta miðvikudag klukkan 20:00.
Nefndin hefur fengið flotta hagyrðinga til að vera með okkur og ýmislegt skemmtilegt verður gert. Við lærum að yrkja, keppumst við að leysa vísnagátur og að sjálfsögðu reynum við að botna einhverja skemmtilega fyrriparta.
Hlakka til að sjá ykkur
kveðja
Hanna Dalkvist
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2007 | 16:26
Aðalfundur
Minni ykkur kæru félagar á Aðalfundinn okkar næsta sunnudag 15.apríl í Konnakoti, hvetjum alla til að mæta.
Ég verð því miður fjarri góðu gamni því ég ætla að skella mér til Skotlands í fyrramálið að sækja vorið, verð komin með það fyrir Sumardaginn Fyrsta
Svo erum við að undirbúa bráðskemmtilegt Hagyrðingakvöld, læt ykkur vita betur af því seinna.
Bestu kveðjur og góða skemmtun um helgina
Jóhanna
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 12:43
Við biðlum til ykkar kæru lesendur
Komið þið sæl.
Þessa dagana erum við að safna saman og koma á prent ljóðunum hans
Manna, Jóns Snæbjörnssonar, frá Mýrartungu. Þess vegna viljum við
biðla til ykkar, að þið hristið upp í minninu, kíkið í gamlar
gestabækur, skoðið gömul heillakort og sjáið hvort einhversstaðar
leynist ljóð eða vísa eftir hann. Ef svo er, þætti okkur vænt um að
þið kæmuð því til okkar. Með tölvupósti, bréfapósti eða í gegnum síma.
Með fyrirfram þakklæti,
Aðalheiður Hallgrímsdóttir
Veghúsum 31 #906
112 Reykjavík
s. 567 0904
netfang: heidahallgrims@vortex.is
P.S. Manni skrifaði fundargerð á stjórnarfundi í
Barðstrendingafélaginu þann 5. júní 1996, hluti hennar er svona:
Félagar mættir, fundur er settur
formaður tekur til máls.
Hér er nú allt í ágætis lagi
og engin er snara um háls,
finnst mér því best að sem fæst skuli talið
svo frá okkur týnist ei vitið,
fleira ekki fyrir tekið
fundi er slitið.
Þegar Konnakot var keypt, varð þessi vísa til hjá honum:
Út við hendum allri sorg
fyrst íbúð fengum slíka.
Sumarliði bjó í Borg,
Barðstrendingar líka.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2007 | 09:01
Galdrar
http://www.vestfirdir.is/galdrasyning/viskubrunnur/galdrasogur.htm
Að mjólka fjarlægar kýr
Á bæ einum á Hornströndum bjuggu hjón sem mjög vóru grunuð um galdur. Hjá þeim uppólst dóttir þeirra. Þegar hún var orðin hér um bil hálffullorðin fór sýslumaður að taka rannsókn um þetta mál. Ekki er þess getið hvað foreldrarnir meðgengu. En þegar til dótturinnar kom kvaðst hún ekkert kunna nema að mjólka kýr. Bað sýslumaður hana að sýna sér það og tiltók sjálfur á hvaða bæ kýrin skyldi vera. Tók hún þá puntstrá og rak í holu sem boruð var í stoð, fór svo með tíu marka fötu undir puntstráið og mjólkaði fötuna fulla með nýmjólk. Sýslumaður bað hana að mjólka meira, en hún sagðist ekki mega það, því kýrin skemmdist. Herti þá sýslumaður á henni og mjólkaði hún enn nokkuð unz það fór að koma blóðkorgur. Nú sagði hún kýrin væri farin að skemmast. Herti þá sýslumaður enn að henni að mjólka þar til það fór að koma blóð. Hætti hún þá allt í einu og sagði að nú væri kýrin dauð. Reyndist það og svo að á enni sömu stund hafði sú tiltekna kýr dottið steindauð niður.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 457-458
http://www.vestfirdir.is/galdrasyning/viskubrunnur/galdrasogur/02.htm
Galdra-Loftur
Loftur Þorsteinsson sá sem víðfrægur er í þjóðsögum og bókmenntum mun hafa dvalið í æsku hjá Þormóði í Gvendareyjum á Breiðafirði, en Þormóður var talinn fjölkunnugur eins og greint er frá í þjóðsögum. Hann hefur verið í Hólaskóla um 1720 en víst er talið að hann lauk ekki skólanámi og að líkindum varð hann ekki gamall og endaði ævi sína á Vesturlandi. Það var hins vegar Norðanlands sem þjóðsagan um hann þróaðist í þá mynd sem við þekkjum í dag. Hins vegar var ekki óalgengt að skólasveinar stunduðu kukl og nokkrir þeirra sem voru samtíða Lofti á Hólum voru síðar taldir fjölkunnugir.
http://www.vestfirdir.is/galdrasyning/viskubrunnur/m_galdra-loftur.htm
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2007 | 22:38
Loksins loksins
Voðalega hef ég svikist um núna við að halda þessari síðu okkar gangandi.
Langar að setja hér inn slóð sem pabbi minn Guðjón Dalkvist sendi mér, þetta eru myndir úr Reykhólasveitinni meðal annars. http://flickr.com/photos/magnussveinsson/sets/72157594177909559/detail/
og svo stal ég þessu af Reykhólavefnum góða:
Tvídrepið var tófuskott.... (19. febrúar 2007) Játi fór á tófuveiðar og náði einni. Kom hann stoltur heim með skottið og bað Lóu um að koma því á hreppsskrifstofuna fyrir sig sem var lítið mál. Lóa hengdi skottið í plastpoka upp á vegg í þvottahúsinu til að grípa það með sér. Er Lóa ætlaði að grípa skottið, kom í ljós að helv.... tíkin hafði komist í skottið, tætt plastpokann í sundur og innihaldið með þannig að aðkoman var ekki falleg. Þá varð einum góðum manni að orði:
Alltaf frétti ég eitthvað gott
af öllu má nú státa.
Tvídrepið var tófuskott
af tíkinni og Játa.
En leifarnar af skottinu komust á leiðarenda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2007 | 15:53
Þorrablót
Ég fékk góðan póst frá Helga Sæmundsyni þar sem hann viðrar við mig skemmtilega hugmynd og vil ég koma henni áfram til ykkar til umhugsunar.
Helgi stingur upp á því að Barðstrendingafélagið taki við þorrablótum Patreksfirðinga og Rauðsendinga og geri þau að Barðstrendingablótum.
Mér þykir þessi hugmynd afar góð og tel þetta gullið tækifæri til að starta þorrablótum aftur. Ég er persónulega mjög spennt fyrir því að við færum út í það að halda þorrablót, en það mega ekki vera of mörg blót í boði, því þá eins og gefur að skilja, koma ekki eins margir. Þess vegna væri þetta spennandi hugmynd. Hinsvegar þyrftum við að ákveða þetta fyrir vorið að ég tel og ef af þessu verður að skipa þá í þorrablótsnefnd sem fyrst.
Það væri gaman að heyra frá ykkur og vita hvað ykkur finnst um þetta.
Bestu kveðjur, Hanna Dalkvist
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2007 | 08:35
Áhugavert af Reykhólar.is
Ég hvet ykkur til að kíkja reglulega á http://www.reykholar.is/ því þar kemur margt skemmtilegt fram, til dæmis eins og þetta:
Þáttaskil í verslunarsögu Reykhólahrepps.
Verslunarsagan í stórum dráttum:
Svo segir í tímaritinu Sveitarstjórnarmálum, 1. tbl. 1988 í grein eftir Lýð Björnsson, sagnfærðing:
"Verzlunarstaður var tekinn upp í Flatey árið 1777, en áður höfðu íbúar Geiradals- Króksfjarðar- g Flateyjarhrepps þurft að sækja verzlun til Stykkishlóms og íbúar Gufudals- og Múlahrepps til Bíldudals, enda þótti þeim þægilegra að fara yfir Lækjarheði til Bíldudals en til Pateksfjarðar. Stofnun verzlunarstaðar í Flatey varð því íbúum Austur-Barðastrandarsýslu til mikilla hagsbóta, enda var verzlunarstaður þar stofnaður að ósk þeirra. Íslenzkir kaupmenn náðu fljótlega öllum tökum á Flateyjarverzlun. Þar kveður mest að Guðmundi Scheving, einum hinna þriggja miklu brautryðjenda um þilskipaútgerð á Íslandi. Hann hóf útgerð þilskipa frá Flatey á fyrsta tugi19. aldar, en þilskipaútgerð var síðan fóturinn undir atvinnulíf í eynni talsvert fram á 20. öld. Flatey var síðan verzlunarmiðstöð sævðisins alls allt til ársins 1911 og vesturhlutans fram yfir heimsstyrjöldina síðari. Kaupfélag var stofnað í Króksfjarðarnesi árið 1911 og að frumkvæði þeirra feðga Ólafs Eggertssonar og Jóns Ólafssonar og fleiri bænda. Þar var verzlunarmiðsjtöð austurhlutans allt til loka heimsstyrjaldarinnar síðari og meginhluta svæðisins upp frá því. Reykhólar, hið forna höfuðból, urðu læknissetur árið 1929 og prestssetur tveimur áratugum síðar. Þar var stofnsett tilraunastöð í jarðyrkju á árinum 1946-1947. Þetta er upphaf þéttbýlismyndunar á Reykhólum, en hún tók fyrst fjörkipp með tilkomu þörungaverksmiðjunnar á árinum 1974-1976. Reykhólar eru nú eina þéttbýlissvæðið innan takmarka Reykhólahrepps hins nýja".
Þið getið farið beint inn á þetta og séð mynd af Kaupfélagi Króksfjarðar með því að smella hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2007 | 10:44
Spilavist í dag
Minni ykkur á spilavistina í dag klukkan 14 og svo hálfsmánaðarlega fram í enda mars
Fundurinn á miðvikudag gekk mjög vel og margir tóku til máls. Þakka ykkur fyrir að láta í ljós skoðanir ykkar á málefnalegan hátt, það er mikils virði að fólk geti talað saman þó það sé ekki endilega sammála um alla hluti.
Það kom glögglega í ljós hver vilji meirihlutans var. Því miður komst Ólína ekki svo ég var sú eina sem mætti og talaði fyrir því að Kvennadeildin yrði gerð að fjáröflunarnefnd innan félagsins. Hinsvegar tók fjöldi fólks til máls og tjáði sig um ástæður þess að ekki væri breytinga þörf. Þetta er greinilega þeirra hjartans mál að halda þessu óbreyttu og sýndu það með því að mæta og segja sína skoðun. Mér fannst þó jafnvel að fólk væri tilbúið til að hugsa um að breyta aldurstakmarkinu í sumarkaffið og Jónsmessuferðina en það verður rætt betur seinna að ég hygg.
Allir í vist í dag
kv Hanna Dalkvist
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)