Yfirlýsing, félagsfundur og spilavist.

Á stjórnarfundi Barðstrendingafélagsins 10. janúar 2007 var gerð eftirfarandi bókun:

Stjórn Barðstrendingafélagsins í Reykjavík fagnar þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið að farin verði leið B í væntanlegri vegagerð í Austur-Barðastrandasýslu.

 

Vil svo minna ykkur á félagsfundinn á miðvikudaginn næsta 17.janúar klukkan 20:00, hlakka til að sjá ykkur öll og vona að þið sem flest látið í ljós skoðanir ykkar.

Svo er spilavistin góða að byrja á næstu helgi, laugardaginn 20.janúar klukkan 14:00.

Hlakka til að sjá ykkur Smile

Stutt í dag hjá mér, bæti það upp.

kveðja, Hanna Dalkvist


Styttist í fund

Jæja kæru félagar, þá er nýja árið komið og það styttist í fundinn okkar góða.

Við í stjórninni ætlum að hittast í næstu viku 10.jan og hita okkur upp fyrir fundinn viku síðar. Nefnilega 17.janúar ætlið þið að koma í Konnakot og tjá skoðanir ykkar og hlusta á skoðanir annarra í sambandi við framtíð Barðstrendingafélagsins. Við erum að sjálfsögðu ekki að tala um hvort við eigum að leggja það niður eða eitthvað í þá áttina, heldur erum við að tala um í hvaða mynd við viljum hafa það og eins og ég hef áður sagt var uppsprettan að þessum fundi sú spurning hvort Kvennadeildin ætti að vera rekin sem sér félag eða sem fjáröflunardeild innan Barðstrendingafélagsins.

Svo ég fái mér nú forskot á sæluna þá segji ég fyrir mína parta að ég myndi vilja að þetta yrði fjáröflunardeild innan félagsins. Það þarf ekkert að breytast í raun nema það að þá er væri deildin rekin undir félaginu og að þá væri það Barðstrendingafélagið sem væri að gefa gjafirnar en ekki bara Kvennadeildin. Ég hef heyrt þau rök að gjafirnar séu hvort sem er frá félaginu þó að Kvennadeildin sé skrifuð fyrir þeim af því að karlarnir séu að gera helling líka. Mér finnst hins vegar að þessi rök séu einmitt rök til að breyta þessu. Ef að einhver les einhversstaðar að Kvennadeild Barðstrendingafélagasins hafi gefið eitthvað, hver fær þá heiðurinn? Jú, auðvitað konurnar. En hvað með alla karlana sem hjálpuðu til? Þeir hafa jafnvel gert meira og mikið meira en margar konurnar og það er ekki sjálfgefið að allir bara viti að þeir séu innan þessa hóps sem Kvennadeildin er. Þvert á móti heldur fólk að það séu bara konurnar að gefa gjöfina.

En þetta er nú bara mín skoðun og bara ein hlið á minni skoðun og var sett fram í þeim tilgangi að hita ykkur upp og hvetja ykkur til að mæta á félagsfundinn okkar 17.janúar.

Hlakka til að sjá ykkur Cool

kveðja, Hanna Dalkvist 


Gleðilegt árið og gleðilegt ár

Já þetta ár hefur verið gleðilegt en ég efast ekki um að næsta ár verður enn gleðilegra.

Ég hitti vinkonu mína í gær sem beið spennt eftir áramótunum, ekki eftir flugeldunum, ekki eftir góða matnum, ekki eftir áramótaskaupinu, hún beið eingöngu spennt eftir því að þetta ár yrði búið og nýtt kæmi í staðinn því þá væri hægt að hætta að hugsa um allt sem gerðist á þessu ári, sem nota bene var kannski ekkert rosalega gott hjá henni.

Við notum nefnilega oft áramótin til að gera breytingar, þetta eru ákveðin kaflaskipti. Þó við strengjum ekki endilega áramótaheit þá viljum við gjarnan hugsa að á þessu ári ætlum við sko að gera þetta betur og gera eitthvað nýtt og svo framvegis.

En ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og friðar og þakka ykkur fyrir gleðilega samveru á árinu. 

Bestu kveðjur

Hanna Dalkvist 


Algjör snilld

Það hefur oft verið talað um krafta náttúrunnar og hér er einn eitt dæmið um það að náttúran ræður sér sjálf.

Innlent | mbl.is | 27.12.2006 | 16:10
Hraunmolarnir, sem konan skilaði. Ferðamálastofu barst á Þorláksmessu lítill pakki frá konu í Kanada. Þegar pakkinn var opnaður komu í ljós tveir litlir hraunmolar og bréf frá konunni, sem sagðist hafa tekið hraunmolana á Íslandi í sumar en síðan hafi ógæfan elt hana. Henni hafi verið sagt að á Hawaii séu ferðamenn varaðir við að taka með sér hraunmola því það reiti guðina til reiði og valdi ógæfu. 


mbl.is Óttaðist reiði guðanna og skilaði hraunmolunum aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakveðja

Gleðilega hátíð.

 

Sjáumst hress á nýju ári.

 

Kveðja, Hanna Dalkvist 


Úbbbs aðeins of sein

Já kæru vandamenn, vinir og hinir, ég er aðeins of sein með bloggið núna og bið ykkur innilegrar afsökunar á því.

Jólavakan okkar var rosalega notaleg og skemmtileg. Við sungum jólalög, borðuðum smákökur, drukkum heitt súkkulaði og hápunkturinn var að sjálfsögðu að ég og Ólína lásum upp úr tveimur jólabókum og Ólína las til viðbótar ljóð eftir pabba sinn Jón Snæbjörnsson sem ég og fleiri þekktum alltaf best sem Manna.

Þetta var mjög upplífgandi og skemmtilegt í grámyglu hversdagsins mátulega rétt fyrir jól. 

Næst á dagskrá hjá okkur öllum eru auðvitað jól og áramót. Við munum svo hittast kát og hress á nýju ári og vonast ég til að sjá ykkur sem flest á félagsfundinum 17.janúar þar sem framtíð Barðstrendingafélagsins verður rædd. Upptökin af þeim fundi er umræða á síðasta aðalfundi um hvort Kvennadeildin eigi að vera sér deild eða nefnd innan félagsins. Það má búast við fjörugum umræðum og skiptum skoðunum á því og efast ég ekki um að þetta verði bráðskemmtilegur fundur. Ég skora á ykkur að mæta og segja ykkar skoðun, það er engin skoðun röng og það þurfa ekki allir að vera sammála, en við þurfum að ræða málin. Og þið skuluð ekki hika við að segja ykkar skoðun. Eins og gamli maðurinn sagði einu sinni við mig og ég reyni að fara alltaf eftir því: "Þú skalt alltaf hlusta á allt sem allir hafa að segja, því það er engin svo vitlaus að það komi ekki einhverntíma eitthvað af viti út úr honum".

Læt þetta vera lokaorðin í bili Smile

Bestu kveðjur

Hanna Dalkvist frá Mýrartungu I 


Jólavakan

Hæ hæ

 Bara rétt að minna ykkur á jólavökuna á morgun sunnudag klukkan 16:00 í Konnakoti.

Við Ólína mætum auðvitað og margt fleira skemmtilegt fólk Wink

Við ætlum líka að lesa upp úr bókum fyrir ykkur, borða kökur með ykkur og drekka heitt súkkulaði með ykkur.

 Hlakka til að sjá ykkur Kissing

Kveðja

Hanna Dalkvist 


Hvað er græðgi?

 

Gráðug kerling

hitaði sér velling

og borðaði, namm, namm, namm,

síðan svo, jamm, jamm, jamm

af honum heilan helling.

                        (Þorkell Sigurbjörnsson)

Já sjálfsagt þykir auðvelt að útskýra hugtakið græðgi ef talað er um það í sambandi við mat. Ég er gráðug ef ég háma í mig matinn eða ef ég borða miklu meira en ég þarf. Svo ég tali nú ekki um ef ég borða svo mikið að einhver fær ekki nóg eða alls ekki neitt. Já, þá er ég sko heldur betur gráðug. 

En hvað er græðgi ef við lítum á það hugtak í sambandi við viðskipti?

Ég hélt að ég vissi það, en eftir því sem ég hugsaði meira því vissari var ég um að ég hefði ekki vitað það.

Hvað er græðgi annað en áráttan að hrifsa eitthvað frá öðrum til að safna veraldlegum auð og ágirnast meiri veraldlegan auð en ég þarf eða verðskulda?

Við íslendingar eigum mikið af nýríku fólki og fólki sem kann að ávaxta peningana sína, "braska" með þá og búa til verðmæti úr þeim og margir þar af leiðandi orðnir milljónamæringar. Er þetta fólk gráðugt? Þetta er fólk sem gengur vel og kann að nýta sér efnahagsuppgang þjóðarinnar, er það þá gráðugt? Hver ætlar að taka að sér að dæma um hvort þetta fólk þurfi þessi verðmæti eða verðskuldi þau? Á ég að gera það, eða þú? Eða þurfum við kannski að skoða þetta aðeins nánar?

Nýleg forsíða Séð og Heyrt skartar þremur íslenskum fótboltastjörnum sem eiga 335 íbúðir, er það græðgi ? Hver hefur ekki heyrt þessa setningu "voðaleg græðgi er í þessu fólki, hvað hefur það að gera með alla þessa peninga?" Já, hvað hafa þessar fótboltastjörnur að gera með allar þessar íbúðir? Auðvitað koma þeir ekki til með að búa í þeim öllum. En hvað með það? Þeir eru bara að ávaxta peningana sína. Ef ég kaupi hlutabréf í Actavis er ekki þar með sagt að ég ætli að smakka á öllum lyfjunum sem þar eru framleidd. Ég er eingöngu að ávaxta peningana mína með það í huga að kaupa eitthvað annað seinna. Jafnvel ætla ég bara að hafa það gott í ellinni, vil geta hætt að vinna fyrir sextugt og farið að leika mér. Er það græðgi? Eða leti? Eða langar mig bara til að vera með fjölskyldunni og njóta lífsins? Það að vilja eignast mikið af peningum þarf ekki alltaf að vera neikvætt?

Græðgi er án efa frekar neikvætt orð í hugum fólks. Græðgi er ein af höfuðsyndunum sjö. Er græðgi þá það þegar ég vil eignast mikið af peningum af því að ég er löt, afla mér þeirra á ólöglegan hátt eða þannig að það bitnar illa á öðrum?

Ég gerði mjög óvísindalega könnun meðal starfsfélaga minna og spurði þrjá þeirra hvernig þeir myndu skilgreina hugtakið græðgi. Svörin sem ég fékk voru þessi:

            Það er þegar þú villt meiri peninga en þú hefur hugmynd um hvað þú ætlar að gera við og/eða finnur ekki löngun til að nota þá.

            Það er þegar þú reynir að afla þeirra ólöglega eða með því að meiða aðra.

            Frelsi er það svæði sem þú hefur til athafna án þess að snerta nefið á næsta manni. Ef þú reynir að afla peninganna utan þess svæðis, kallast það græðgi.

Þetta þykja mér satt að segja bara nokkuð góðar skilgreiningar. Ef ég afla peninganna á löglegan hátt, án þess að snerta annarra manna nef og veit hvað ég ætla eða langar að gera við þá, þá er ég ekki gráðug, þó það sé eingöngu til að ég geti hætt að vinna og borað í nefið á sjálfri mér þegar ég verð sextug.

Margir virðast vilja halda fram að þegar ég eignast pening að þá tapi einhver annar sömu upphæð, það tel ég ekki vera rétt, fyrir utan það að það geta verið svo margir fleiri sem eru að græða þegar ég græði. Hugsum aðeins um það. Segjum að ég ætti einn milljarð íslenskra króna. Hvað gerist þá? Ég myndi trúlega ekki grafa þær krónur í jörðu undir snúrunum í garðinum heima, ég myndi trúlega reyna að fjárfesta skynsamlega og ávaxta þannig peningana. Hvað gerist þá? Jú, segjum að ég fjárfesti í fyrirtæki, eitthvað fólk hlýtur að vinna hjá þessu fyrirtæki og sjá til þess að uppbygging verði og framfarir, þannig að eftir ákveðin tíma þénar fyrirtækið meira og peningarnir mínir orðnir meira virði en þegar ég fjárfesti. Þegar fyrirtækið fær auknar tekjur vill það gjarnan stækka. Hvað gerist þá? Jú, það verða til fleiri störf og störf skapa tekjur fyrir fólk. Þá hefur mín leit að meiri peningum orðið til þess að fleira fólk eignast peninga. Með öðrum orðum, peningarnir stoppa ekki hjá mér og eru fastir þar, þeir halda áfram, auka virði sitt og fleiri fá notið þeirra. Þetta er að sjálfsögðu einföldun en það þarf ekki að gera alla hluti flókna til að skilja grunnatriðin.

Er hugtakið græðgi kannski runnið út úr hugtakinu afprýðisemi? Við öfundum þessar þrjár fótboltastjörnur af því að geta bara leikið sér í fótbolta, fengið borgað fyrir það og keypt svo 335 íbúðir, þeir eru bara ógeðslega gráðugir hugsum við, hvað er að þessum mönnum? Nei hugtakið græðgi stendur fyrir sínu og er til og er ekkert nýtt af nálinni. Hins vegar tel ég að við séum að ofnota það vegna afprýðisemi. Við segjum að þessi og hinn sé með peningagræðgi þegar honum gengur vel. Af hverju samgleðjumst við ekki þessu fólki? Við örgumst og agnúumst yfir því að þau gefi ekki peningana í góðgerðastarfsemi og linnum ekki látum fyrr en einhver gerir það og hvað segjum við þá? "Jah hann má nú við því, hann á skítnóg af peningum, það er ekki eins og hann finni eitthvað fyrir þessu...". Eins heyrist oft: "þetta er nú bara svipuð upphæð fyrir hann eins og fyrir mig að gefa þúsund krónur". Af hverju gerum við það þá ekki? Hugsið ykkur ef allir gæfu þúsund krónur sem geta það, það myndi bjarga ótrúlega miklu. En nei okkur dettur það ekki í hug, það eru hinir sem eiga að gefa. Það er ofsalega erfitt að gera okkur til geðs því við erum alltof fljót að sjá neikvæðu hliðarnar á öllu. Ættum við ekki frekar að reyna að læra af þessu fólki?

Prófum að samgleðjast næst þegar við sjáum að einhver á 335 íbúðir. Prófum að vera jákvæð næst þegar við sjáum að einhver var að kaupa sér þúsund fermetra hús með átta baðherbergjum, fimm stofum, tíu svefnherbergjum, sundlaug og keiluherbergi.

Eftir þessar hugsanir mínar hef ég komist að niðurstöðu. Græðgi er slæm, græðgi er vond, en það sem við köllum dags daglega græðgi, er ekki græðgi. Græðgi er þegar þú reynir að afla verðmæta, sem þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ætlar að gera við, á ólöglegan hátt og með því að snerta nef annarra. Látum annarra manna nef í friði.

 

 

 


Fundurinn

Jæja félagar, fundurinn okkar var á miðvikudagskvöldið og var rosalega góða mæting.

Jólavakan okkar verður 10.desember klukkan 16:00 og hvet ég ykkur öll til að koma og fá ykkur heitt súkkulaði og eitthvað fleira skemmtilegt.

17.janúar verður félagsfundur um framtíð félagsins og er mikilvægt að sem flestir mæti þá.

20.janúar byrjum við á spilavistinni og spilum á hálfs-mánaðar fresti til páska.

Svo langar okkur ofsalega að hafa Hagyrðingakvöld eftir áramót en það er ekki komin dagsetning á það enda mikið framundan eins og er.

Sjáumst á jólavökunni, komumst í jólaskapið og miðlum því áfram til annarra Grin

 Kveðja, Hanna Dalkvist

christmas-eve-2


Af hverju ekki Alþing ?

Þættinum hefur borist bréf.

Bréfritari spyr: " Af hverju fara menn á Alþingi en ekki Alþing, samanborið að menn fara á þing en ekki þingi ?"

Ég er búin að hugsa um þetta í töluverðan tíma og kemst ekki að neinni niðurstöðu nema helst þeirri að þetta hljóti að vera einhvers-konar þróun í málinu, hvort sem hún er svo góð eða slæm. Mér persónulega þykir Alþing vera fallegra orð heldur en Alþingi og finnst þess vegna að það eigi að breyta þessu. Alþing er einhvern vegin sterkara orð og meiri stíll yfir því.

Kannski er þetta bara ástæðan. Áður fyrr voru þetta sterk þing og margt ákveðið og komið í framkvæmd á þessum þingum, svo þá var við hæfi að þetta héti Alþing. Núna hins vegar er Alþingi bara veik veimiltítuvæla þar sem ekkert gerist nema fólk nöldrar hvert í öðru og heldur í þá veiku von að einhver nenni að hlusta. Þar er ekki mikið fyrir stílnum að fara.

Ég sé þetta alveg fyrir mér:

Í gamla daga riðu menn á Alþing, sterkir og stæðilegir menn í hvaða veðri sem er og tóku þar miklar og sterkar ákvarðanir sem skiptu alla máli.

Nú í dag, keyra menn á Alþingi á nýju flottu upphituðu bíllunum sínum, og jafnvel með einkabílstjóra, klæddir í nýjan ullarfrakka, með loðskinnshúfu og vettlinga, með ref um hálsinn og þurfa rétt að skjóta sér fimm metra úr bílnum og inn í hús þar sem þeir geta vælt allan daginn eins og þeim listir og fengið borgað fyrir það. Þótt niðurstaðan verði oftar en ekki engin, ná þeir að hanga þarna ár eftir ár eftir ár.

Ég myndi segja að þetta væru stór tæknileg mistök.

Ég vil fá Alþing á Íslandi !!!

Hver er ykkar skoðun ?

bless í bili

Hanna Dalkvist


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband